laugardagur, ágúst 07, 2004 |
Vá næstum því mánuður liðinn |
Ég veit að ég er búin að vera löt við þetta. Enda mikið unnið á þessum tíma og svo vikufrí. Við unnum eins og geðsjúklingar í tæpar 3 vikur. Enda borguðum við skólagjöldin okkar og bílinn á þeim tíma. Þannig að það var bara gott. Svo fórum við í vikuferðalag. Tökum það fyrir dag fyrir dag bara.
Föstudagur 30. júlí
Lögðum af stað að heiman um klukkan 10. Kíktum á Eyrarbakka og kvöddum foreldra hans Tomma. Svo var ferðinni haldið á Selfoss til að versla í bónus. Keyptum nottla grillkjöt, pappadiska og plasthnífapör. Ætluðum sko ekki að hafa mikið fyrir uppvaskinu á ferðalaginu. Þegar þessi innkaup voru búin fórum við til Reykjavíkur og keyptum okkur nýtt tjald, vorum búin að sjá tjald í rúmfatalagernum og ákváðum bara að skella okkur á það. Svo fórum við frá Reykjavík um hálf 2. Umferðin var tekin að þyngjast en við vorum þó heppin og lentum alltaf í röðum sem keyrðu á ca. 100. Fyrsti útúrdúr ferðarinnar var til að sjá Hvítserk við Húnafjörð. Það var rosaflott að sjá, þó ég hafi nú alltaf haldið að kletturinn væri stærri en þetta. ;) Fyrsti svefnstaðurinn var á Lauftúni sem er rétt við Varmahlíð. Tjölduðum þar í bölvuðu roki og gekk það þó óvenjuvel. Svona þegar litið er til þess að þetta var fyrsta skiptið sem við tjölduðum tjaldinu okkar. ;)
Laugardagur 31. júlí
Vöknuðum um átta leytið og borðuðum morgunmat og tókum svo tjaldið saman. Fórum af stað svo um 10 leytið. Þá var förinni heitið í sund á Hólum í Hjaltadal og kom okkur á óvart að finna ágætis laug þar. Svo keyrðum við slatta þann dag. Kíktum á Hofsós en skoðuðum þó ekki vesturfarasetrið. Renndum í gegnum Ólafsfjörð, þar fékk Teddi að stökkva út og leika sér. Svo tók við Dalvík, þar fékk Teddi að heilsa upp á mömmu sína. Og loks komum við á Akureyri. Byrjuðum á því að fara upp í Kjarnaskóg og grilla pylsur, fórum svo niður í miðbæ og röltum um þar. Reyndar alveg ógeðslega mikið af fólki þar og töluverð ölvun svona um miðjan dag. Síðan kíktum við á Mæju, Lovísu og Þröst Alexander, hef ekki séð hann síðan hann var pínulítill en í dag er hann 2ja ára. Þaðan héldum við svo til Lilju og Viðars, en þau voru með íbúð á Akureyri og mamma og pabbi voru hjá þeim. Fengum okkur að borða með þeim áður en við fórum af stað aftur. Keyrðum þó ekki mjög langt, tjölduðum á Húsavík þá nóttina.
Sunnudagur 1. ágúst
Vöknuðum aftur um átta leytið, borðuðum morgunmat og tókum saman tjaldið okkar. Kíktum svo á reðursafnið, sem er nú nokkuð flott, fórum svo í búð og héldum aftur af stað. Keyrðum aðeins til baka til að skoða Goðafoss. Hann er alltaf jafn flottur. Svo keyðum við í gegnum Mývatnssveit á leið okkar til Raufarhafnar. Tókum svo veginn yfir Hólssandinn sem er ekkert neitt rosalega góður vegur. Hittum mömmu og pabba í ásbyrgissjoppunni. Þau fóru með okkur inn í Ásbyrgi. Þar fengum við okkur að borða og röltum svo aðeins um. Svo var stefnan tekin á Raufarhöfn, þegar þangað var komið fórum við í sund og tókum hana Ölmu Dögg með okkur. Svo grillaði pabbi kjúkling í matinn handa okkur öllum.
Mánudagur 2. ágúst
Ég vaknaði með Tedda um átta leytið en Tommi fékk að sofa út. Það var nú ekkert neitt rosalega mikið gert þann daginn, að vísu var bílinn tekinn í gegn og það lagað sem þurfti að laga. Svo voru Tommi og mamma mjög dugleg við að þrífa og bóna bílinn. Það er alltaf sett svo mikið út á mín handtök þannig að ég kom sem minnst nálægt þessu. Þegar búið var að borða morgunmat var haldið í berjatúr upp á fjallgarð. Þar fundust nú ekki bláber, bara vísar að þeim. En við gátum tínt smá krækiber, þá meina ég sko lítil krækiber. Um kvödið var grillað... aftur. Grillmatur þrjá daga í röð! ;)
Þriðjudagur 3. ágúst
Ég fékk að sofa út þann daginn. Við lágum bara í leti fram að hádegi en þá gat ég farið í bankann og sótt kortið mitt sem lá þar. Eftir að hafa kvatt alla héldum við af stað aftur. Ferðin byrjaði ekki nógu vel, en eins og sagt er þá er fall fararheill. Komum aðeins við í búð á Þórshöfn, nenntum ekki niður á Bakkafjörð, renndum í gegnum Vopnafjörð og enduðum svo á að stoppa á Egilstöðum og borða. Þegar allir voru saddir keyrðum við inn í Atlavík en þar tjölduðum við í 2 nætur. Vorum alveg rosalega heppin með það að fólk sem við tjölduðum rétt hjá var með börn sem nenntu að leika við Tedda og honum fannst líka mjög gaman að leika við hann.
Miðvikudagur 4. ágúst
Vöknuðum klukkan átta sem fyrr. Þessum degi eyddum við í ferð upp á Kárahnjúka, flott að sjá þetta svæði. Fréttum það seinna að við vorum eiginlega í smá hættu þegar við keyrðum yfir brúna þarna. ;) Gott að maður vissi það ekki þá. Var nú samt eitt nokkuð skondið sem gerðist, fórum á útsýnispall þarna, en þar hittum við Heiðu sem var deildarstjórinn á gömlu deildinni hans Tedda á leikskólanum. Maður er allavegana hættur að kippa sér upp við að hitta fólk sem maður þekkir og kannast við. Þó það sé einhversstaðar útí rassgati! ;) Komumst svo á síðustu bensíndropunum á næstu bensínstöð (gleymdum að taka bensín). Fengum okkur hádegsimat á tjaldstæðinu og fórum svo í sund. Hleyptum Tedda einum í rennibrautina, tókum alltaf á móti honum þegar hann kom niður. Tommi var svo rosalega góður að hann keypti handa mér buxur og bol í búð þarna. Fengum reyndar bolinn ókeypis með buxunum. ;) En það var samt fínt. Fórum svo í bónus og versluðum mat sem átti að duga út ferðina. Restin af deginum fór í leik og grill. ;)
Fimmtudagur 5. ágúst
Héldum enn og aftur af stað eftir að hafa vaknað um átta leytið, borðað morgunmat og tekið saman tjaldið okkar. Keyrðum á Egilsstaði og versluðum það sem gleymdist deginum áður. ;) Keyrðum svo af stað til að fara austfirðina. En það eina sem við í rauninni sáum var þokan. Komumst reyndar á Reyðarfjörð í björtu, en þegar við renndum í hlað hjá ættingjum Tomma, en þau búa á sveitabæ við Reyðarfjörð, mætti okkar þessi líka fína þoka. Þannig að þegar upp var staðið sáum við ekki mikið af austfjörðunum og stoppuðum ekki oft. Enda svaf Teddi nánast alla austfirðina. Stoppuðum svo á safni rétt utan við Djúpavog. Það er statt á Teigarhorni og inniheldur geislasteina, eyddum heilum 400 krónum í að skoða þetta ómerkilega safn! Mæli ekki með því. Héldum svo ferðinni áfram og stoppuðum á Höfn í Hornafirði. En þar á Tommi ættingja sem buðu okkur í mat, reyndar buðu þau okkur gistingu líka en við vorum búin að ákveða að tjalda í Skaftafelli þannig að við brunuðum þangað. Það gekk MJÖG brösulega að tjalda þar. En undirlagið á tjaldstæðinu er bara möl þannig að við þurftum að skáskjóta öllum tjaldhælunum og þess vegna varð tjaldið nú svolítið skakkt hjá okkur.
Föstudagur 6. ágúst
Eins og áður vöknuðum við um átta leytið. En þá rigndi svo mikið að við nenntum ekki að taka tjaldið saman alveg strax. En svo stytti upp og við drifum okkur í að taka tjaldið saman. Fundum okkur svo skjól og borðuðum morgunmat. Fórum svo í sund á Kirkjubæjarklaustri, dýrasta laug sem ég hef farið í, borguðum 300 krónur á mann. Þegar búið var að þrífa af okkur skítinn fengum við okkur að borða í sjoppu á klaustrinu. Þar var sú ákvörðun tekin að bruna bara heim. Það var svo rosalega mikil rigning að við ómögulega nenntum að tjalda eina nótt í viðbót. Enda var nánast rigning alla leiðina heim. Ákváðum að enda ferðina formlega með því að rölta á bakvið Seljalandsfoss, en það stytti upp rétt á meðan við gerðum það. En þó rennblotnaði ég við það ferðalag, lenti illa í úðanum frá fossinum! ;) Keyrðum svo á Selfoss og versluðum þar. Kíktum í heimsókn á Eyrarbakka til að sýna þeim að við erum heil á húfi. Fórum síðan heim og var það bara mjög gott!
Þetta var frábært ferðalag og sé ég alls ekki eftir því að hafa farið. Við nutum þess að vera saman og vorum ekkert að stressa okkur yfir neinu. Enda erum við bara öll ánægð með þetta allt saman.
|
posted by Latur Bloggari @ 11:34 |
|
|
|
Um mig |
Name: Latur Bloggari
Home: Reykjavík, Iceland
About Me:
See my complete profile
|
Fyrri færslur |
|
Tenglar |
|
Færslusafn |
|
Powered by |
|
|