Jæja þá er aðgerðin búin og ég með 4 göt á maganum og gallblöðrunni fátækari. Tökum hvern dag fyrir sig í kringum aðgerð.
Fimmtudagur 14. apríl Mætti á spítalann klukkan hálf níu. Þar tók á móti mér hjúkrunarfræðingur sem fékk hjá mér upplýsingar um mig og mitt heilsufar. Svo var ég send í blóðprufu. Svo hitti ég svæfingarlækni og skurðlækninn. Eftir það fór ég í smá læknisskoðun hjá deildarlækni. Síðast en ekki síst fór ég í hjartalínurit. Get sko alveg sagt ykkur það að maður var orðinn soldið stressaður. Um kvöldið þurfti ég svo að koma upp á spítala og fá blóðþynningarlyf í sprautuformi.
Föstudagur 15. apríl Vaknaði klukkan 6 og spjallaði aðeins við hana Ölmu Dögg frænku. Fór svo í sturtu og tók eyrnalokkinn minn úr eyranu. Mátti ekki hafa neina skartgripi á mér. Var mætt upp á spítala klukkan hálf 8. Þar var ég send inn á stofu, þar sem ég fór úr mínum fötum og í þennan líka hátísku sjúkrahúsfatnað. Svo lá ég bara þarna og beið þangað til hálf 9 að ég var sótt. Þá var farið með mig í undirbúningsherbergi fyrir aðgerðina. Þar var sett nál í handlegginn á mér og hárnet á hausinn og asnalegir sokkar á fæturnar. Konan sem setti upp nálina hjá mér spurði mig hvort ég væri stressuð og ég jánkaði því. Var eiginlega með tárin í augunum ég var orðin svo hrædd. Hún gaf mér kæruleysislyf í æð og það virkaði nú nokkuð fljótlega. Svo var mér keyrt inn á skurðstofuna og þar færði ég mig sjálf yfir á skurðborðið. Frekar spúkí að sjá allt þetta fólk og öll þessi tæki og tól. Svo var mér gefið súrefni og ég man ekki mikið meira fyrr en ég vaknaði. Ég vaknaði klukkan 10:50 og var þá á vöknun. Ég vaknaði grátandi, veit samt ekki alveg afhverju ég var að gráta. Þar lá ég í 3 tíma, fyrst með súrefni í nefinu en það var tekið þegar ég bað þær um það, en ég þurfti að vera dugleg að anda. Ég var nefnilega í öndunarvél í aðgerðinni og þurfti þess vegna að vera dugleg við að draga andann djúpt. Svo fékk ég verkjalyf þegar ég bað um þau. Svo fékk ég að fara niður á stofu og þar beið Tommi með eina rós handa mér. Hann stoppaði reyndar stutt, en það var allt í lagi því ég fór bara að sofa. Mókti fram eftir degi. Ég fékk kvöldmat þá um kvöldið, en það var ekki gott, mér varð svo flökurt af honum. Svo lá ég bara og horfði á sjónvarpið og dottaði aðeins yfir því. Svo um 11 leitið var ég orðin svöng og bað um að fá eitthvað að borða, ef það væri hægt. Ég fékk ristað brauð með osti og borðaði það með bestu lyst og fann engin óþægindi á eftir. Ég sofnaði svo um hálf eitt en svaf frekar illa.
Laugardagur 16. apríl Vaknði snemma við það að ég átti mjög erfitt með að anda. Fékk ógeðslegan verk yfir brjóstkassann og hægri hlutann af líkamanum þegar ég andaði. Hjúkrunarfræðingurinn gaf mér bólgueyðandi í æð og 2 verkjatöflur. Það sló á þetta. Ég skildi ekkert í því að klukkan var orðin 10 og ég ekki farin að fá neitt að borða, þannig að ég spurði þær útí það hvort ég ætti nú ekki að fá morgunmat. Þær voru steinhissa, sögðust hafa pantað fyrir mig morgunmat. En ég virðist hafa gleymst. Því var reddað með cheerios og eplsafa. Svo fékk ég að skella mér í sturtu og vá hvað það var gott. Fljótlega eftir sturtuna fékk ég hádegismat og gat borðað hann án vandræða. Tommi kom um eitt leitið og þá spurði ég þær hvort ég mætti ekki bara fara. Það var ekkert mál og við fórum um hálf 2 og vorum komin heim um hálf 3-3.
Ég var nánast sofandi fyrstu dagana eftir aðgerðina. En svo hef ég verið að hressast og í dag er ég nánast hætt að taka verkjatöflur og er búin að taka plástrana af sárunum. Þetta lítur víst bara ágætlega út. Gallblaðran mín var samt alveg stútfull af steinum og læknirinn sagði það greinilegt að hún hafi bólgnað mikið. Þannig að það var greinilega þörf á þessari aðgerð ;)
|