Latur bloggari... ;)
hey ég hef hvort sem er ekki mikið að segja, afhverju að vera þá alltaf blaðrandi
sunnudagur, júlí 29, 2007
Ferðasaga
Jæja kominn tími til að segja frá ferðasögunni.

Við vorum komnar nokkuð snemma út á keflavíkurflugvöll og dunduðum okkur við að skoða úrvalið þar, borða og spila. Svo kom loksins að því að við fórum í flugið og við vorum svakalega spenntar. Flugið var fínt að flestu leiti... vorum orðnar svolítið þreyttar á stelpunum sem sátu fyrir aftan okkur, en það reddaðist.
Lentum í Barcelona seint um kvöld og þegar við gengum útúr vélinni lentum við á vegg hita og raka. Ég þakkaði fyrir það að við lentum ekki að degi til. Eftir smá vesen með farangurinn þá komumst við loksins í Aerobus, en það er rúta sem gengur frá flugvellinum til torgs sem heitir Placa de Catalunya. Þá tók við leitin að hótelinu, tókum eina vitlausa beygju, sem var samt ekki meira vitlaus en það að við komumst nokkurn veginn á réttan stað áfallalaust.
Hótelið var nú ekki upp á marga fiska og getur maður lært af þessu að maður þarf að fara varlega í það að panta hótel á netinu. En við ákváðum að gera það besta úr því og við vorum svosem ekki svo mikið á hótelinu. Við gengum frá dótinu okkar og röltum svo aðeins út á La Rambla til að skoða staðarhætti og fá okkur smá að borða, gerðum það sama og flestir Íslendingar gera þegar þeir fara til útlanda og fórum á McDonalds. Það var fullt af fólki þarna og langflestir vel drukknir.
Á sunnudeginum vöknuðum við og náðum í Barcelona kortin okkar, en það gaf okkur aðgang að almenningssamgöngunum þar og afslátt á marga staði. Fórum svo okkar fyrstu ferð í Metro og fórum í Parc Güell. Ég komst að þeirri niðurstöðu að fólk ætti að hætta að kvarta yfir öllum brekkunum á Akureyri, þar sem að brekkan sem við gengum upp í áttina að garðinum var með því brattara sem ég hef séð. Þessvegna var ég alsæl með að það voru nú rúllustigar hálfa leiðina :p Garðurinn var nokkuð flottur en það var eins með hann og marga aðra túristastaðina þarna... alltof mikið af fólki. Seinnipartinn notuðum við í að rölta á stað sem heitir Poble Espanyol en það er smá húsaþyrping sem er samsett af þekktum húsum á Spáni. Þar fékk eitt það versta nautakjöt sem ég hef smakkað og við fengum okkur Sangria. Þegar við vorum búnar að borða fórum við að sjá gosbrunn sem er svakalega flottur. Hann heitir Font Mágica og hann getur breytt um form. Svo þegar það er komið myrkur kveikja þeir ljós í honum og láta hann dansa í takt við tónlist. Það er geggjað flott og fullt af fólki sem kemur að sjá hann. Ég komst líka að því að vasaþjófar nýta sér saklaust fólk sem er upptekið við að njóta sýningarinnar. Honum tókst að vísu ekki að ná neinu af mér, en það munaði voðalega litlu þar sem ég tók viðbragð áður en hann komst með höndina alla leið ofan í töskuna mína.
Á mánudeginum fórum við í dýragarðinn og eyddum nokkrum tímum í það að rölta um og skoða dýrin. Sáum líka svona Dolphin Show sem var geggjað flott. Ég tók alltof mikið af myndum þar... var eins og ég hefði aldrei séð dýragarð fyrr. Þaðan röltum við yfir í L'Aquarium og sáum fullt af fiskum og nokkrar mörgæsir. Ekkert smá gaman að sjá þetta allt saman. Við hliðiðna á L'Aquarium er bíó með svakalega stórum skjá og við skelltum okkur á 2 myndir, önnur var leiðinleg en hin var flott, þar sem hún var í þrívídd. Skrítið að sjá hlutina á bíótjaldinu synda í áttina að manni. Þá um kvöldið ætluðum við á veitingastað sem við sáum í túristabókinni minni... en á leiðinni þangað sáum við annan flottan og ákváðum á endanum að fara þangað. þar fengum við okkur nautasteikur, rauðvín og ég fékk mér ostaköku í eftirrétt... þetta var besti maturinn sem ég fékk í allri ferðinni.
Á þriðjudeginum fórum við í La Sagrada Familia, en það er kirkja sem hefur verið í byggingu síðan 1888 og er ekki áætlað að verði tilbúin fyrr en 2030. Þeir nota peninginn sem kemur inn þegar fólk fer að skoða í það að borga bygginguna á húsinu. Þetta er svakalega stór bygging og svakalega flott að sjá, en það var alltof mikið af fólki þarna að maður naut þess eiginlega ekki. Þeir sem ákváðu að fara í lyftu upp í einn turninn þurftu að bíða í rúmlega klukkutíma eftir því að komast upp og við vorum ekki að nenna því. Þannig að við stoppuðum bara stutt þar og enduðum á því að fara í verslunarrölt. Ég eyddi nú svosem ekki miklum pening, keypti 2 geisladiska, dót fyrir ipodinn minn og skó. Eftir miklar hugleiðingar um það hvort við ættum að fara á þann stað sem við vorum búnar að ákveða að fara á eða hvort við ættum að fara upp á hótel og slappa af, ákváðum við að fara á staðinn og njóta þess að hafa síðasta daginn lausan. Seinni partinn fórum við að skoða geðveikt flott hús sem heitir La Pedrera. Arkitektúrinn þar er svakalega flottur, en sá sami og hannaði Sagrada Familia hannaði La Pedrera.
Á miðvikudeginum þurftum við að tékka okkur út af hótelinu fyrir hádegi en vorum búnar að finna það út að við gætum geymt farangurinn okkar þar þangað til að við færum á flugvöllinn. Við áttum ekki flug fyrr en seint um kvöldið og ákváðum því að skella okkur á ströndina. Ströndin var fín, en sólin of sterk og við aðeins of kærulausar með sólarvörnina. Þannig að þegar við komum á hótelið eftir strandarferð vorum við að verða ansi rauðar og hófumst handa við að bera á okkur aftersun. Við vorum nú ekki á því að gera eitthvað fleira... vorum ansi dasaðar eftir strandarferðina þannig að við fórum aðeins of snemma út á flugvöll. Bruninn minn var farinn að segja til sín og ég gat helst ekki staðið kjurr og var því svolítið pirrandi held ég svona síðustu klukkutímana af ferðinni. Flugferðin heim var ekki góð... en ég lifði það af ;)

Í heildina var þetta geggjuð ferð og ég er til í að fara aftur til Barcelona en þá veit maður líka hvað maður þarf að bæta í næstu ferð.
posted by Latur Bloggari @ 15:59   2 comments
þriðjudagur, júlí 10, 2007
Sumarfrí
Ég er loksins komin í sumarfrí eftir langa bið og eru aðeins 3 dagar í það að ég fari til Barcelona. Mikið svakalega er ég spennt fyrir því. Í gær fór ég til tannsa og hann reif úr mér einn endajaxl... það var ekki þægilegt.
Ég keypti mér hund þegar ég fór norður um daginn, fæ hann afhentan þegar ég flyt norður, sýnist allt stefna í að hann komi til með að heita Pjakkur.
posted by Latur Bloggari @ 21:55   1 comments
Um mig

Name: Latur Bloggari
Home: Reykjavík, Iceland
About Me:
See my complete profile
Fyrri færslur
Tenglar
Færslusafn
Powered by

15n41n1

BLOGGER