Latur bloggari... ;)
hey ég hef hvort sem er ekki mikið að segja, afhverju að vera þá alltaf blaðrandi
mánudagur, mars 28, 2005
Páskar
Jæja þá eru páskarnir að verða búnir og maður tók smá pásu frá nammibindindinu. Byrja aftur á fullu á morgun ;)

Teddi fór til mömmu sinnar á fimmtudagsmorgun og kom svo aftur til okkar í gær. Voðalega tómlegt þegar hann er ekki hérna hjá okkur.

Á fimmtudagskvöldið fórum við í Borgarleikhúsið að sjá Houdini snýr aftur. Flott sýning og rosalega gaman að gera eitthvað sem maður er ekki vanur að gera ;) Á föstudaginn fórum við í barnaafmæli hjá Veigari og Birki. Tveimur afmælum slegið saman í eitt, þó annað afmælisbarnið hafi átt afmæli þann 4. mars og hitt ekki fyrr en 23. apríl. Fengum eitt stykki hund með okkur heim, það þurfti nefnilega að fara með hana Dögg í klippingu á Stokkseyri, þannig að við tókum hana bara með okkur austur og skiluðum henni á laugardeginum. Þannig að við fórum líka í bæinn á laugardeginum og lentum í mat hjá Lilju. Svo í gær var borðað saman heima hjá Veigari. Geðveikt góður hamborgarahryggur og meðlæti með. Svo var sykursprengja í eftirrétt ;) Í kvöld er förinni svo heitið á bakkann þar sem við ætlum að kíkja á foreldra hans Tomma.
posted by Latur Bloggari @ 14:21   0 comments
miðvikudagur, mars 23, 2005
átak
jæja þá er maður farinn að koma sér af stað í að hreyfa sig. Eins og sást í síðustu færslu var ég dugleg að synda í síðustu viku. Svo fór ég að synda núna á mánudaginn og í göngutúr í gærkvöldi.

Auk þess hef ég ekki borðað nammi allan þennan mánuð, semsagt 23 dagar með deginum í dag, og ekkert kók drukkið. Fæ mér bara Egils Kristal þegar mig langar í gos.

Kemst svo því miður ekki í að synda né ganga í dag, verð bara að taka það út tvöfalt seinna.

Stefnan er að fara alltaf 3 daga í viku og synda og hina dagana að ganga.

Svo verður maður að fara að taka til í matarræðinu. Er að vísu búin að venja mig á að borða morgunmat og yfirleitt ávöxt í morgunkaffinu og seinna kaffinu og á kvöldin. Missi mig stundum í að borða aðeins of mikið í matartímum en það er sjaldnar sem það gerist en það gerði áður.

Ég set mér það markmið að missa allavegana 12 kíló á þessu ári.
posted by Latur Bloggari @ 20:47   0 comments
laugardagur, mars 19, 2005
Dugnaður
Ég var geðveikt dugleg í síðustu viku! Á mánudag, miðvikudag og föstudag fór ég í sund og synti kílómeter í hvert sinn. Hélt vísu að ég myndi drukkna fyrsta daginn, annan daginn hélt ég að ég myndi einfaldlega gefast upp en þriðja daginn gekk þetta bara mjög vel. Svo er bara að vera duglegur og halda svona áfram :)
posted by Latur Bloggari @ 08:14   0 comments
laugardagur, mars 12, 2005
vinnumál og ritgerðamál
Á fimmtudagsmorgun mætti ég í vinnuna klukkan 5, það var erfitt. Maður var orðinn ansi þreyttur á hádegi og farinn á sjá rúmið í hyllingum um 3 leitið. En þegar Gísli verkstjóri kom til mín og bað mig um að vinna til 7 og mæta svo aftur klukkan 8 og vinna til 4 um nóttina hikaði ég ekki við að segja já. Reyndar sá ég fljótt eftir því ;) en það verður þá bara meira gaman að fá útborgað á fimmtudaginn næsta. Svo bað hann mig líka um að mæta klukkan 1 á föstudeginum og vera til 7, en ég varð að neita honum um það.

Ég þurfti nefnilega að skrifa eitt stykki uppkast að ritgerð og skila fyrir miðnætti á föstudag. Ég náði að klessa niður tæplega 500 orðum af 1500 og sendi á slaginu 12. Fæ ábyggilega miklar skammir frá kennaranum fyrir þessi skil. En það verður bara að hafa það.

Tommi fór að vinna klukkan hálf 8 í gærkvöldi og er ekki von á honum heim fyrr en um hádegi. Það sem verra er að hann fer svo að vinna aftur í kvöld og verður eitthvað fram á nótt. En það er þó eitt gott við það, hann fær sennilega vel yfir 20 þúsund kall fyrir þettta, þar sem skatturinn fær ekki neitt af þessum peningum hans :) Ég gæti ábyggilega verið að vinna líka, en það þarf einhver að vera heima með hann Tedda og það er meiri þörf á lyftaramanni en almennum starfsmanni. Í gær gerðist víst soldið skondinn hlutur í vinnunni (eða það finnst mér), það er stelpa sem vinnur stundum á lyftara og svo er kærastinn hennar líka að vinna þarna. Hún er oft ógætin á lyftaranum og horfir ekki nógu vel í kringum sig, þannig að í gær bakkaði hún óvart á kærastann sinn og hann er víst allur marinn og blár, þurfti að fara heim úr vinnu í gær. Fólk hefur velt því fyrir sér hvort hann sé nýbúinn að kaupa sér líftryggingu ;)

Svo er ég að fara að minnka við mig vinnuna aftur, svona svo ég hafi einhvern tímann tíma fyrir skólann. Hef verið of löt við að stunda námið og er það farið að koma niður á mér. Að vísu getur Gísli verkstjóri ekki lofað mér því að ég fái alltaf mánudag og þriðjudag í frí, þannig að ég sagði honum að það væri svosem í lagi svo lengi sem ég fengi alltaf 2 daga í viku. Þá þarf maður bara að rífa sig upp á rassgatinu og drífa sig í að lesa og glósa og horfa á fyrirlestra. Það er nú einu sinni bara 1 og hálfur mánuður í próf.
posted by Latur Bloggari @ 09:27   0 comments
miðvikudagur, mars 09, 2005
of mikil vinna, of lítill skóli
Ég tilkynnti verkstjóranum mínum það í dag að ég þyrfti að minnka við mig vinnuna aftur. Annars er á hraðferð í fall í skólanum. Ég er semsagt búin að vera að vinna ansi mikið undanfarið og er það sko farið að segja til sín námslega séð. Tjah og líka líkamlega séð líka.

Síðasta fimmtudag varð hún elsku amma 85 ára og í tilefni dagsins héldu synir hennar matarboð henni til heiðurs. Meira að segja mamma og pabbi skelltu sér í bæjarferð af því tilefni. Eina leiðinlega var að hún var lasin kellingarræfillinn. En hún ku hafa skemmt sér ansi vel.

En það var líka smá leiðinlegar fréttir þann fimmtudag, strákur sem er frá Raufarhöfn lést í umferðarslysi. Hann er númer 7 af fólki undir 30 og tengist Raufarhöfn að deyja á síðustu 7 árum. Þar af eru 6 farnir í slysum. Ég vorkenni þeim sem hafa verið vinir alls þessa fólks... pæliði í því hve erfitt það hlýtur að vera. Ég get ekki einu sinni ímyndað mér sorgina ef ég missti einn vin, hvað þá 7.

Á mánudaginn fékk ég að vita að það eru minnst 3 mánuðir í aðgerðina mína. Þannig að ég gæti átt von á aðgerð í júní. Það kostar 10 daga frí frá vinnu.
posted by Latur Bloggari @ 18:41   0 comments
Um mig

Name: Latur Bloggari
Home: Reykjavík, Iceland
About Me:
See my complete profile
Fyrri færslur
Tenglar
Færslusafn
Powered by

15n41n1

BLOGGER